Ný íslensk skáldsaga, Sýslumaðurinn sem sá álfa, kemur út í dag. Svo óvenjulega vill til að sama dag fer fram útför höfundarins, Ernis Kristjáns Snorrasonar geðlæknis, sálfræðings og rithöfundar.
Ernir skrifaði bókina síðustu mánuðina sem hann lifði en hann lést á líknardeild Landspítalans 26. apríl síðastliðinn, 68 ára að aldri. Hann segir í tileinkun að bókin sé kveðja til umheimsins sem hann ann svo heitt. „Og vonandi vekur hún einhverjum bros og svolitla gleði.“
Tómas Hermannsson, útgefandi hjá Sögum útgáfu, segir að verkefnið hafi verið óvenjulegt. Hann tekur fram að bókin sé góð og það sé forsenda þess að ákveðið var að gefa hana út. „Við vissum að það var mikið kappsmál hjá Erni að fá hana útgefna áður en hann létist en það tókst því miður ekki. En nú er hún komin og ekkert annað að gera en að koma henni til lesenda,“ segir Tómas.