Fæli í sér eðlisbreytingu á EES-samningnum

Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor.
Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor.

Ef fallist yrði á það að sameiginlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins næði til Íslands með þeim hætti sem sambandið hefði farið fram á fæli það í sér fráhvarf frá því tveggja stoða kerfi sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) byggist á auk þess sem stofnanir sambandsins fengju þá ákveðna lögsögu yfir íslenskum málum. Þetta segir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Þannig yrði um ákveðna eðlisbreytingu að ræða.

Stefán bendir á að þegar samið hafi verið um EES-samninginn á sínum tíma hafi EFTA-ríkin lagt mikla áherslu á að um tveggja stoða kerfi yrði að ræða og að þau yrðu ekki undir lögsögu Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sett. Fyrir vikið hafi EFTA-dómstólnum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið komið á fót til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem gerðust aðilar að honum; Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Eins og mbl.is hefur greint frá vill Evrópusambandið að valdsvið nýrra eftirlitsstofnana þess með fjármálamörkuðum nái til allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sem eru öll ríki sambandsins auk áðurnefndra EFTA-ríkja. Ákvörðunum þessara stofnana yrði hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins og eftir atvikum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það gengur hins vegar gegn stjórnarskránni og yrði að breyta henni til þess að slíkt væri mögulegt eins og fram kemur í áliti sem Stefán vann fyrir ríkisstjórnina ásamt Björgu Thorarensen lagaprófessor.

Vantar aðeins pólitískan vilja ESB

Stefán segir að það sé ekkert því til fyrirstöðu lagalega eða tæknilega að viðhalda tveggja stoða kerfinu sem verið hafi í gildi til þessa. Það vanti einungis pólitískan vilja Evrópusambandsins. „Ég hef ekki séð rökin fyrir því af hverju það eigi ekki að halda áfram með sama kerfi,“ segir hann og bendir á að í samkeppnismálum sé þegar til staðar það fyrirkomulag að stofnanir sambandsins sjái um eftirlit með ríkjum þess á meðan Eftirlitsstofnun EFTA sjái um þau mál gagnvart EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES-samningnum.

„Þeir hafa samvinnu sín á milli Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórnin, gera það í öllum málum, og dómstólarnir að einhverju leyti,“ segir Stefán og segir að ef framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taki einhverja ákvörðun og óski eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA geri slíkt hið sama vegna einhverra þrenginga á fjármálamarkaði þá gangi það fyrirkomulag algerlega.

Stefán segir ennfremur aðspurður að ef samþykkt verður að fjármálaeftirlit hér á landi falli undir lögsögu stofnana Evrópusambandsins felist í því ákveðið fordæmi. Með því sé verið að opna á slíkt fyrirkomulag. „Það að við færum undir eitthvert dómsvald dómstóls ESB væri náttúrlega alveg nýtt í málinu,“ segir hann.

„En það er alveg óháð spurningunni hvort það ætti að breyta stjórnarskránni. Það er sjálfsagt til bóta að taka á því hvernig sem menn tækju á því en jafnvel þó við hefðum slíkt stjórnarskrárákvæði þá fyndist mér ekki sjálfsagt að fara að færa þetta upp úr tveggjastoðakerfinu. Bara alls ekki. Það er engan veginn gefið.“

Haft hefur verið eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í fjölmiðlum að hann telji aðeins tvennt í stöðunni. Annaðhvort að breyta stjórnarskránni eða segja upp EES-samningnum. Spurður hvort málið sé með þeim hætti segist Stefán ekki telja að það sé svona svarthvítt.

„Mér finnst að það eigi að láta reyna á það til þrautar hvort það eigi ekki að fella þetta undir tveggjastoðakerfis lausnina,“ segir Stefán og segir að það mætti hugsanlega til að mynda setja fram stífari kröfur af hálfu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert