Hætti að innheimta ólögmæt lán

Gríðarlegur fjöldi bílalána sem tekin voru árið 2007 og snemma …
Gríðarlegur fjöldi bílalána sem tekin voru árið 2007 og snemma árs 2008 eru gengistryggð lán, sem síðar voru dæmd ólögmæt. mbl.is/Golli

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, veltir því upp á vefsvæði sínu hvort ekki væri mikilvægara að Alþingi beitti sér fyrir því að stöðva innheimtu ólögmætra gengistryggðra lána fremur en að þrasa um nöfn á ráðuneytum, enda virðist lítill þrýstingur á fjármálafyrirtæki.

Eygló hefur undanfarið fjallað töluvert um gengistryggðu lánin og spurði nýverið innanríkisráðherra út í áhrif af dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. en þá dæmdi hann ólögmætt að miða við vexti Seðlabanka Íslands frá upphafi lánstímans, eins og fjármálafyrirtækin lögðu upp með frá því gengistryggðu lánin voru dæmd ólögmæt í júní 2010.

Í svari ráðherra segir að öllum fullnustuaðgerðum fjármálafyrirtækja eigi að fresta sem byggjast á lánum sem ljóst er að falla undir umræddan dóm frá 15. febrúar.

Enginn fengið nýjan útreikning

Eygló segir í færslu á vefsvæði sínu að varla verði komin niðurstaða í ágreiningsefni um gengistryggðu lánin fyrr en í fyrsta lagi í haust og jafnvel ekki fyrr en um áramót. „Lítill þrýstingur virðist vera á fjármálafyrirtækin að drífa þessi mál af og koma þeim inn í dómskerfið. Enginn hefur fengið nýjan útreikning.“

Á sama tíma og fjármálafyrirtækin eru að vinna sameiginlega að viðbrögðum við dómnum liggur fyrir að lántakendur fá senda greiðsluseðla í hverjum mánuði, óbreytta frá því sem var fyrir dóminn. Ekkert tillit hafi því verið tekið til þess að Hæstiréttur hafi dæmt það ólöglegt að miða við vexti Seðlabankans frá upphafi lántöku.

Þá spyr Eygló: „Þarf ekki að tryggja að bankarnir hætti að innheimta gengistryggðu lánin þar til niðurstöður liggja fyrir?“

Þá hefur verið bent á, síðast 1. maí, að Samtök fjármálafyrirtækja hafi skilað inn umsögn til Alþingis fyrir níu árum þar sem á það var bent að umrætt lánaform stæðist ekki íslensk lög. Alþingi hafi því verið það fullkunnugt.

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka