Innan nokkurra vikna verður ekkert eftir af gamla varðskipinu Þór III, annað en timbur og járn sem endurnýtt verður í hnífapör, hjól eða annan varning. Þór er nú kominn upp á land í Helguvík þar sem hann endar frækinn feril sinn og verður hlutaður í sundur næstu daga.
„Við byrjum einhverja næstu daga. Þá verður þetta klippt niður í búta og allt efni flokkað, timbur járn og annað slíkt. Svo fer þetta til útflutnings,“ segir Hafsteinn Hilmarsson, verkstjóri hjá Hringrás sem keypti skipið til niðurrifs.
Draugaskip sem flýtur þó ágætlega
Þór var dreginn frá Reykjavík til Njarðvíkur fyrir 10 dögum og í gærkvöldi var honum svo siglt inn Helguvík, þar sem stór skurður var grafinn inn í landið og Þór dreginn á þurrt. Þegar blaðamaður ræddi við Hafstein var verið að moka fyrir skurðinn aftur. Þór siglir því ekki framar, en hann flaut ágætlega að sögn Hafsteins í sinni hinstu för þótt hið fyrrverandi glæsta skip sé orðið heldur óhrjálegt.
„Það er áratugur síðan þessu var lagt, þetta er bara draugaskip, enda notað í hryllingsmynd síðast,“ segir Hafsteinn. Um 4-5 menn munu vinna að því næstu 3 vikurnar eða svo að taka Þór í sundur. Hafsteinn segir að uppistaðan í skipinu sé endurnýtanleg.
„Þetta er orðið þannig í dag að af þyngd skipsins eru níutíu og eitthvað prósent endurnýtanleg, sennilega upp undir 100%. Þetta verður notað í ýmsan annan varning, hjól eða hnífapör eða bíl, eða jafnvel annað skip.“
Þór III er skip sem ber mikla sögu. Það var smíðað fyrir Landhelgisgæsluna 1951 og var 920 tonn, 55,9 m á lengd og 9,5 m á breidd. Þór gegndi veigamiklu hlutverki í þorskastríðum milli Íslands og Bretlands.