Þingmenn á Evrópuráðsþinginu, þingi Evrópuráðsins í Strassborg, horfa til réttarhaldanna yfir Geir H. Haarde fyrir Landsdómi með hugsanleg pólitísk réttarhöld í einhverju aðildarríkja sambandsins í huga.
Þetta segir Pieters Omtzigts, þingmaður Kristilegra demókrata í Hollandi í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, en hann er hér á landi til að afla gagna um málið.
„Fyrir um hálfu ári setti ég þessa rannsókn í gang. Hafði ég þá þurft að telja öðrum þingmönnum trú um að það sem væri að gerast á Íslandi væri áhugavert og hefði skírskotun til margra annarra ríkja. Nú er áhuginn á málinu að aukast vegna þess að stjórnmálamenn eru orðnir uggandi um vaxandi og langvarandi óstöðugleika í stjórnmálum aðildarríkja evrusvæðisins,“ segir Omtzigt og bendir á að íslensk stjórnvöld hafi orðið fyrst til að draga stjórnmálamann til ábyrgðar í dómsal vegna kreppunnar. Austur í Úkraínu hafi stjórnmálamaður einnig verið dreginn fyrir dóm og hyggst Omtzigt rannsaka það mál í Kænugarði.