Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan níu í morgun á Gistihúsinu á Egilsstöðum en þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin fundar á Austurlandi. Áður hafði hún fundað á Vestfjörðum, Norðurlandi og Reykjanesi.
Að lokum fundi ríkisstjórnarinnar og blaðamannafundi fer fram stofnfundur sameinaðrar stoðstofnunar á Austurlandi á Reyðarfirði og mun Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytja ávarp á fundinum. Fram kemur í tilkynningu að stofnfundurinn sé öllum opinn en einungis fulltrúar stofnaðila hafi hins vegar atkvæðisrétt.
Í kjölfar stofnfundarins fer fram málþing undir yfirskriftinni „Landshlutar í sókn!“ sem hefst með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Stofnfundurinn hefst klukkan eitt en málþingið klukkan 15.
Á stofnfundinum mun ríkisstjórnin undirrita viðaukasamninga vegna sameiningar stoðstofnana og samning um framlag ríkisins til sameinaðar stoðstofnunar.