Við höfðum rætt saman og kynnt þessar kröfur, en það kom mér á óvart þegar ég las í Morgunblaðinu að ekkert yrði af hvalavertíð í sumar þar sem ekki hefðu náðst samningar við Sjómannafélag Íslands um kaup og kjör,“ segir Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar félagsins. Í samtali við Morgunblaðið í gær er haft eftir Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf., að fyrirtækið geti ekki gengið að kröfum félagsins um að greiða bætur vegna skerðingar sem orðið hefur á sjómannaafslætti.
Jónas segir að bætur vegna skerðingar sjómannaafsláttar hafi einnig verið ein meginkrafa félagsins í viðræðum við ríkið fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar í vetur. Eftir um átta vikna verkfall hafi verið fallist á kröfur um þessar bætur og í heildina hafi laun undirmanna á rannsóknaskipum hækkað um yfir 40%. Aðspurður hvort slíkar bætur hefðu fengist í kjarasamningum við Eimskip og Samskip sagðist Jónas ekki geta greint frá efnisatriðum að baki þeim samningum.
Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um ráðstafanir í skattamálum í byrjun desember 2009 og sagði þá m.a. um sjómannaafsláttinn:
„Sjómannaafsláttur hefur lengi verið umdeildur og gagnrýni á hann hefur vaxið á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Forsendur fyrir honum hafa breyst mjög frá því sem upphaflega var og erfitt að rökstyðja hann gagnvart ýmsum hópum sem að einhverju leyti eru í sambærilegri stöðu eða starfa við sambærilegar aðstæður. Þá hafa vaknað spurningar um sjómannaafsláttinn með tilliti til samkeppnisstöðu og ríkisaðstoðar við atvinnurekstur.
Rök fyrir sjómannaafslætti á sínum tíma voru m.a. langar fjarvistir frá heimili, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði. Öll þessi atriði hafa breyst eða dregið hefur úr gildi þeirra í samanburði við aðra launþega. Afskipti ríkisins af kjörum einstakra starfsstétta heyra nú sögunni til og er eðlilegt að þau ráðist í samskiptum launþega og vinnuveitenda og eðlilegt er að hver atvinnugrein beri launakostnað af starfseminni þar sem annað veldur misræmi á kostnaði og óhagkvæmni. Hluti af þeim störfum sem nú eru unnin á sjó voru áður unnin í landi án þess að því fylgdi nokkur skattaívilnun. Sambærileg störf eru einnig unnin í landi og felst því mismunun í sjómannaafslættinum milli fólks eftir vinnustað.
Erfitt hefur reynst að ná samstöðu um þetta mál og því fer ríkisstjórnin nú þær leiðir að láta sjómannaafsláttinn fjara út í áföngum á fjórum árum frá og með tekjuárinu 2011.“