Er íslenska forsenda þátttöku í samfélaginu? Standa allar dyr innflytjendum opnar ef þeir ná tökum á íslensku? Hversu harðar kröfur á að gera til íslenskukunnáttu? Eru þær kannski fyrirsláttur mismununar? Þessum spurningum og fleirum var velt upp á fundi sem teymi um málefni innflytjenda boðaði til í morgun, en teymið er samráðsvettvangur þeirra sem vinna að málefnum innflytjenda.
Nálægt tíundi hver íbúi Íslands er nú af erlendum uppruna. Þótt mörgum gangi ágætlega að fóta sig í íslensku samfélagi sýnir reynslan eftir sem áður að flestir reka sig á ýmsa veggi og tungumálið er aðeins einn þeirra. Þeir sem tóku til máls á fundinum í morgun virtust flestir sammála um að íslenskukunnátta væri vissulega forsenda fyrir fullri aðlögun að samfélaginu, en ekki lykill að því. „Til að taka þátt í samfélaginu hér er ekki nauðsynlegt að tala íslensku. En til að eiga heimili á Íslandi, að finnast maður geta þroskað vináttu og fjölskyldulíf og deilt hæfileikum sínum, þá er gott að tala íslensku,“ sagði Juan Camilo Roman Estrada frá Kólumbíu. Hann sagði viðhorf samfélagsins þó skipta mestu máli.
Komst ekki á íslenskunámskeið vegna búsetu
„Það er mjög svekkjandi að koma hingað, leggja sig allan fram við að læra íslensku, og reka sig samt á veggi,“ sagði einn fundargesta og mátti heyra að þetta væri reynsla sem mjög margir innflytjendur kannist við. Viðkvæðið er gjarnan það að innflytjendur geti orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu svo lengi sem þeir nái góðum tökum á íslensku, en þetta er ekki svo einfalt ef marka má umræðuna í morgun.
Fyrsta hindrunin sem innflytjendur virðast reka sig á í þessu ferli virðist vera hve erfitt getur verið að læra íslenskuna, bæði vegna þess að málið er framandi, en líka vegna þess að aðgengi að íslenskunámskeiðum er ekki alltaf eins og best verður á kosið. Dæmi var nefnt um konu sem uppfyllti ekki það skilyrði fyrir ríkisborgararétti að hafa sótt 150 kennslustundir í íslensku. Áhugann vantaði ekki, en hún er hinsvegar búsett í þorpi úti á landi þar sem hætt var við að bjóða upp á slíkt námskeið þar sem þátttakan var ekki næg. Vegna búsetu hafði hún því ekki möguleika á að uppfylla það skilyrði sem stjórnvöld setja henni.
Önnur hindrun er sú að jafnvel þótt innflytjendur ljúki 150 kennslustundum er ekki þar með sagt að þeir kunni íslensku „nógu vel“, ekki síst ef þeir fá lítil tækifæri til að tala hana. Eftir að hafa lært íslensku reka sig þannig margir á það að fá samt ekki vinnu nema við ákveðin störf. Þótt þau tali íslensku verði þau ekki endilega hluti af samfélaginu, séu „samt ekki komin inn“ eins og sagt var í umræðum á fundinum.
Veik staða innflytjenda blasir við
„Það er nánast sama hvar maður stígur niður fæti, veik staða innflytjenda blasir við. Er það eðlilegt?“ spurði Ari Klængur Jónsson, starfsmaður Fjölmenningarseturs á Ísafirði, á fundinum í morgun. Ari benti á að vinnuslys eru tíðari meðal erlendra ríkisborgara. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara var að jafnaði rúm 14% á síðasta ári, sem er mun hærra hlutfall en almennt á vinnumarkaði.
En það er víðar en á vinnumarkaði sem innflytjendur standa höllum fæti. Ari nefndi sem dæmi að börn af erlendum uppruna eru ólíklegri til að fara í framhaldsnám og þau sem það gera líklegri til að flosna upp úr náminu. Líkur á að barn eigi lögheimili hjá móður við skilnað minnkar um 66% ef móðirin er af erlendum uppruna en faðirinn íslenskur, miðað við ef báðir foreldrarnir eru íslenskir.
Þörf á öðrum lausnum en kvöldnámskeiði eftir langan vinnudag
Ari sagði að innflytjendur ekki margt sameiginlegt sem hópur sem skýrt gæti þennan aðstöðumun, „ekki frekar en íbúar Garðabæjar“. Í fljótu bragði væri aðeins hægt að nefna tvennt, þ.e. uppruna utan Íslands og að íslenska er ekki móðurmál þeirra. Ari sagði alveg ljóst að takmörkuð íslenskukunnátta hamli innflytjendum en þótt þeir læri íslensku eftir bestu getu sé heldur ekki þar með sagt að vandinn sé leystur.
Hann sagði ekki sjálfgefið að íslenskukunnátta ætti að vera forsenda búseturéttar. Með því að setja fram þá kröfu sé hinsvegar verið að viðurkenna mikilvægi íslenskunnar og ef svo eigi að vera þurfi að finna lausnir „sem felast ekki endilega í íslenskunámskeiði á kvöldin eftir langan vinnudag“. Ari setti m.a. fram þá hugmynd að innflytjendum væri beinlínis greitt fyrir að læra íslensku. „Þegar upp er staðið gæti ávinningurinn af slíku verklagi verið meiri en kostnaðurinn.“