Kannabisræktanir eru nú í auknum mæli settar upp í fjölbýlishúsum. Í þeim er oft að finna 20-100 kannabisplöntur en undir starfsemina er lagt rými sem telur u.þ.b. 20-50 fermetra. í dag stöðvaði lögrelgan slíka ræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi. Þar var lagt hald á 70 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar.
Lögreglan segir að tvö af herbergjum íbúðarinnar hafi sérstaklega verið útbúin fyrir þessa starfsemi. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn á vettvangi og færður til yfirheyrslu. Hann hefur ekki áður komið við sögu hjá lögreglu.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að sá sem standi að kannabisræktun hverju sinni búi ýmist í íbúðinni eða noti hana eingöngu fyrir ræktunina. Iðulega sé lagt í mikla vinnu og kostnað til að fela ræktunina og því geti reynst erfitt að greina ummerkin um hana. Oftast sé um leiguíbúðir að ræða og verði þær ósjaldan fyrir miklum skemmdum vegna raka, hita, festinga á ræktunarbúnaði og annars frágangs.
„Ef íbúar í fjölbýlishúsum verða varir einhverra ummerkja um hugsanlega kannabisræktun skal tilkynna þær grunsemdir til lögreglu. Minnt er á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann,“ segir í tilkynningunni.