„Fréttin á Stöð 2, um möguleika kræklingabænda til að afla sér lífsviðurværis, vakti ekki beinlínis með manni vonir um að hér færi að birta til í atvinnumálum", segir Ragnhildur Kolka lífeindafræðingur, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir hún að eftir að umhverfis- og matvælastofnanir hafa farið sínum óblíðu höndum um vonir þeirra og væntingar má ætla að jafnvel þrælarnir í þvottahúsum Beijing hafi það betra. Þeir fá í það minnsta súpuskál og grjónakorn í laun fyrir dagsverkið sem nærir betur en skuldasúpan sem stjórnvöld hafa skammtað þessum grunlausu einfeldningum sem hafna atvinnuleysisbótum og lögðu tóg í sjó til að sjá sér farborða.
Í grein sinni segir Ragnhildur: „Það sem hér er stefnt að er nokkurs konar Grikklandsvæðing samkvæmt bestu Evrópustöðlum. Án aðstoðar ESB hefði Grikkjum ekki tekist að koma sér í þessa holu sem þeir nú eru í. Ódýr lán flæddu inn í landið frá ESB-ríkjunum með sérsniðnum vöxtum þýska hagkerfisins. Til að viðhalda innstreyminu var bókhaldið barið til hlýðni og endalaus Vaðlaheiðargöng fengu forgang utan fjárhagsáætlana".