„Að sakamálaákæra fyrir tilstilli Alþingis skuli rannsökuð af sömu mönnum á vegum þings Evrópuráðsins og rannsaka ákæruna og málatilbúnaðinn á hendur Tímósjenkó sýnir á hvaða stig stjórnarhættir hér á landi hafa þróast undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.
Björn vísar til þess í færslu á vefsvæði sínu að hæstaréttarlögmaðurinn Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í landsdómsmálinu var gestur í sjónvarpsþætti hans á ÍNN í dag. Þar fóru þeir almennt yfir málið en einnig um rannsókn þess á vegum þings Evrópuráðsins.
„Ég hafði ekki áttað mig á því að þingið samþykkti í október 2011 að láta fara fram rannsókna á tveimur málaferlum, það er gegn Geir og Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu,“ segir Björn og undrast á því hversu litla athygli rannsóknin hefur fengið hjá fjölmiðlum.
Björn bendir einnig á að Alþingi eigi fulltrúa á þingi Evrópuráðsins og veltir upp þeirri spurningu hvort þeir hafi vakið athygli á samþykkt þingsins. „Evrópuráðsþingmenn samþykkja ekki slíka rannsókn á sínum vegum af því að þeir séu að leita að einhverju sem er til fyrirmyndar heldur af því að þeir telja að stjórnvöld viðkomandi lands hafi farið á svig við það sem eðlilegt er og samrýmanlegt grundvallarreglum mannréttindasáttmála Evrópu eða öðrum samþykktum Evrópuráðsins.“
Að lokum bendir Björn á að ef þing Evrópuráðsins komist að þeirri niðurstöðu að um pólitísk réttarhöld gegn Geir H. Haarde hafi verið að ræða geti það leitt til þess að ESB verði að endurskoða dóma sína um ágæti íslenskra stjórnarhátta.