Olgu Friðriksdóttur, grunnskólakennara á Raufarhöfn, var nokkuð brugðið á þriðjudagskvöldið, þegar hún kom að bíl sínum, sem hún hafði skilið eftir við afleggjarann við Hófaskarðsleið, en hún þurfti að fara á fund til Grenivíkur og fékk far með kollegum sínum frá Þórshöfn.
Þegar hún kom til baka nokkru eftir miðnætti, var búið að brjóta allar rúður í bílnum, beygla og rispa vélarhlíf og bretti. Bíllinn er mikið skemmdur og tjón á honum tilfinnanlegt. Þegar Erlingur B. Thoroddsen, fréttaritari mbl.is á Raufarhöfn, innti Olgu eftir hvernig henni hafi orðið við, kvaðst hún vera bæði sár og reið, því svona hlutir gerast almennt ekki úti á landsbyggðinni, þar sem allt er með frið og spekt.