„Það er trúnaðarmál. Portus er einkahlutafélag og fellur því ekki undir reglur opinberra aðila um upplýsingagjöf,“ segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Totus, spurður hverjir sóttu um stöðu forstjóra hjá Hörpunni.
Fjörutíu og fjórir sóttu um starfið sem auglýst var í mars og var Halldór Guðmundsson ráðinn forstjóri í síðustu viku. Höfðu þá fimm verið valdir úr hópnum eftir forviðtöl og fóru þeir sem hæfastir þóttu í alls þrjú viðtöl.
Að sögn Péturs er ætlunin að bræða Portus og dótturfélögin tvö, Totus og Ago, saman í eitt félag sem nýráðinn forstjóri fer fyrir.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nafn félagsins.