Starfsmönnum fiskvinnslunnar Vísis á Þingeyri hefur verið tilkynnt að vinnsla verði stöðvuð um næstu mánaðamót og fram á haustið. Fiskvinnslan er stærsti vinnustaðurinn á Þingeyri.
Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir í samtali við fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði að leitað sé allra leiða til þess að stoppið verði ekki svo langt, en hann segir það ráðast af markaðsaðstæðum og hráefnisöflun.
Hann segir að starfsmönnum hafi verið tilkynnt um stoppið með mánaðarfyrirvara, ef svo kynni að fara að af því verði. Samkvæmt frétt Bæjarins besta hefur lítil vinnsla verið í Vísi frá síðustu mánaðamótum.