Gjafatilgangur að fella niður ábyrgð

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Ómar

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að slitastjórn Kaupþings hafi verið heimilt að rifta ráðstöfun stjórnar Kaupþings að fella niður persónulega ábyrgð á lánum til starfsmanna. Dómurinn er fordæmisgefandi.

Í dómi Hæstaréttar segir að það hafi verið í samræmi við launastefnu Kaupþings að gera starfsmönnum kleift að kaupa hluti í bankanum og fjármagna þau kaup. Hins vegar hafi það gerst haustið 2008, að háttsettir stjórnunarstarfsmenn áttu í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna falls verðs hlutabréfa.

Stjórn Kaupþings hafði áhyggjur af þessu og taldi að lykilstarfsmenn ættu að geta einbeitt sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum. Ákvað stjórnin að veita forstjóra stefnda heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum.

Samkvæmt því gaf forstjórinn 25. september 2008 út yfirlýsingu þar sem starfsmönnum var tilkynnt að Kaupþing hefði ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ þeirra vegna lána til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Og að ábyrgðin takmarkist við hlutabréf í Kaupþing sem sett hafi verið sem veð.

Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn Kaupþings þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar. Daginn eftir, 9. sama mánaðar, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar.

Mátti vera ljóst að um gjöf var að ræða

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að sú ákvörðun stjórnar Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, hafi augljóslega verið byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir bankann.

„Þótt fallast megi á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni hans í huga var hún í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið höfðu lánin, þar á meðal áfrýjanda. Samkvæmt því bjó einnig gjafatilgangur að baki ákvörðuninni þegar hún var tekin og mátti áfrýjanda vera það ljóst.“

Einnig segir, að þótt gögn málsins bendi til að verðmæti hlutanna, sem settir höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu á skuldbindingum starfsmanna samkvæmt lánssamningunum, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð á lánunum var felld niður, sé ljóst að tveimur vikum síðar voru hlutirnir orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgðin orðið virk. „Þar sem sú ábyrgð hafði verið gefin eftir með hinni riftanlegu ráðstöfun varð stefndi sem fyrr segir fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu auðgaðist áfrýjandi að sama skapi. Verður krafa stefnda um endurgreiðslu úr hendi hennar því tekin til greina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert