Forsætisráðherra: Brýnt að afgreiða stjórnarskrármálið

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú eru tíu þingdagar eftir af þessu Alþingi auk örfárra daga fyrir nefndir til að starfa. Ríkisstjórnin hefur kosið að leggja aðaláherslu á nokkur stór mál sem komu mjög seint fram. Þau hafa nú farið í umsagnarferli og fengið alveg hreint hrikalega útreið hjá umsagnaraðilum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og bendi orðum sínum að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Nefndi hann í því sambandi frumvörp ríkisstjórnarinnar að breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi og rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda. Sagði hann að helstu frumvörp stjórnarflokkanna sem þeir legðu mesta áherslu á og mestur tími færi í að ræða væru ávísun á að þúsundir starfa myndu tapast og fjöldi fyrirtækja í mikilvægustu atvinnugreinum landsins færu hugsanlega á hausinn. Sagði hann að réttast væri að leggja sjávarútvegsfrumvörpin til hliðar enda hefðu þau fengið algera falleinkunn.

„Er ekki kominn tími fyrir hæstvirtan forsætisráðherra til að forgangsraða upp á nýtt og fara aðeins yfir listann af þingmálum og spyrja sig: Eru einhver mál yfir höfuð sem horfa til framfara af þeim sem fyrir þinginu liggja? Væri ekki til dæmis ágætt að hugleiða að fallast á frumvarp sjálfstæðismannaum að flýta dómsmeðferð ágreiningsmála út af skuldauppgjöri? Það er mál sem hefur beðið í nokkur ár en stjórnarmeirihlutinn hefur ávallt komið í veg fyrir að verði lögfest,“ sagði Bjarni.

Staðan ekki verri en á fyrri þingum

Jóhanna sagðist telja að staðan nú það sem eftir lifði af starfsáætlun þingsins væri ekki óvanaleg miðað við fyrri þing. Þá bæði hvað varðaði málafjölda og einnig þau mál sem þyrfti að afgreiða. Hún tók hins vegar fram að hægt væri að grípa til þess ráðs að framlengja þingið að þessu sinni ef á þyrfti að halda. Sagði hún að flýtimeðferð dómsmála hefðu engu skilað umfram það sem orðið hefði.

„Ég viðurkenni vel að mörg þeirra eru mjög stór eins og stjórnarskrármálið. Það er stórt mál en það hefur líka verið í þeim farvegi að sjálfstæðismenn hafa séð til þess raunverulega í þrjú ár að tefja það og við hefðum fyrir löngu getað verið búin að afgreiða það ef sjálfstæðismenn hefðu virt það að það er meirihluti á þinginu fyrir því.Við erum komin í nokkra tímaþröng með það mál en það er mjög brýnt að afgreiða það,“ sagði Jóhanna.

Hvað önnur mál varðaði eins og sjávarútvegsfrumvörpin og rammaáætlunina sagði Jóhanna að eðlilegt væri að þau væru umdeild og skiptar skoðanir á þeim. „Ég tel þó að ef þingmenn vinna vel á þeim tíma sem eftir lifir af þessari starfsáætlun ættum við að komast nokkuð langt með þessi mál. Ef ekki er eilíft málþóf í öllum málum munum við auðvitað komast áfram og klára þessi mál á starfsáætlun. Ef ekki þurfum við að taka málin upp að nýju og skoða það að ná samkomulagi um að framlengja þingið þannig að við getum klárað þessi stóru mál,“ sagði hún.

Bjarni sagði út af fyrir sig rétt hjá Jóhönnu að ekki væri óvanalegt að fjölmörg mál væru óafgreidd á vorþingi en það sem væri óvanalegt væri það að þessi mál væru nýkomin inn í þingið. „Þau eiga almennt séð að koma fram á haustin, vera í vinnu á þinginu yfir allan veturinn og svo tökum við þau til lokaafgreiðslu á vorin. Þetta er ekki að gerast. Það er vegna þess að málin eru nýkomin inn í þingið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert