Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lagði fram tillögu á Alþingi í morgun um að þingfundur yrði lengdur í dag og gæti staðið fram á kvöld og var það samþykkt með 31 atkvæði þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar gegn 17 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins auk Atla Gíslasonar, alþingismanns. Lilja Mósesdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir að taka til máls á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð og sagði ástæðu þess að óskað væri eftir lengri þingfundi þau vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að koma með tugi mála og þar á meðal stór og umdeild mál inn í þingið rétt fyrir lok þess. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu leggjast gegn því.
35 mál eru á dagskrá þingsins í dag og þar á meðal umdeild mál eins og breytingar á stjórnarráðinu, rammasamningur um IPA-styrki frá Evrópusambandinu vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið og skattfrelsi vegna þeirra og þjóðaratkvæði um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.