iPad-tölva fylgir áskrift

iPad-áskrift býðst nú að Morgunblaðinu.
iPad-áskrift býðst nú að Morgunblaðinu.

Morgunblaðið kynnir í dag sérstakt tilboð til háskólastúdenta sem felst í því að bjóða þeim iPad-áskrift að Morgunblaðinu og iPad-spjaldtölva fylgir með. Áskriftin er bundin í 30 mánuði og kostar 2.990 kr. á mánuði. Um er að ræða nýjustu útgáfuna, iPad 3, sem kom á markað í lok mars.

„Með þessu er brotið blað í íslenskri blaðaútgáfu, ef svo má komast að orði,“ segir Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, og vísar til þess að ekki sé um hefðbundna áskrift að blaði að ræða, þar sem enginn pappír sé borinn út.

Til þess að gera þessa áskrift mögulega hefur sérstakt form verið útbúið fyrir iPad-spjaldtölvu í samstarfi við Apple. Það gerir Morgunblaðið mjög aðgengilegt og þægilegt aflestrar á iPad-spjaldtölvu. „Ég veit ekki til að þessi aðferð við tæknilausnina og nálgun við markaðinn hafi verið notuð annars staðar,“ segir Óskar. Hann bætir við að Apple hafi sýnt því sérstakan áhuga að gefa háskólastúdentum kost á að eignast iPad með þessum hætti og því sé hægt að hafa verðið eins lágt og raun ber vitni. Samningurinn hljóði hins vegar upp á takmarkað magn af iPad-spjaldtölvum frá Apple.

Háskólastúdentum gefst kostur á iPad-áskrift og iPad-spjaldtölvu með því að fara inn á sérstaka slóð á netinu (www.mbl.is/mogginn/ipad) og fylgja síðan leiðbeiningum. Þessir áskrifendur fá svo iPad-spjaldtölvurnar afhentar hjá epli.is á Laugavegi 182. Þar verða þjónustufulltrúar frá Morgunblaðinu nýjum áskrifendum til halds og trausts.

Aðrir seinna

„Fyrst í stað er eingöngu um að ræða tilboð til háskólastúdenta en við stefnum að því innan tíðar að gefa öðrum kost á því að kaupa iPad-áskrift að Morgunblaðinu þótt það kunni að vera í öðru formi en það sem við kynnum nú,“ segir Óskar Magnússon útgefandi.

Hægt er að skrá sig fyrir tilboðinu hér á Mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert