Lágflug takmarkað yfir Þjórsárverum

Umhverfisstofnun vill minna á að nú hefur takmörkun lágflugs yfir friðlandinu í Þjórsárverum tekið gildi en samkvæmt reglum um friðlandið er flug neðan 3.000 feta hæðar yfir friðlandinu utan jökuls óheimil á tímabilinu 10. maí til 10. ágúst.

 Þjórsárver voru gerð að friðlandi árið 1981. Þjórsárver eru eitt víðáttumesta gróðurlendi miðhálendisins og er þar að finna einn helsta varpstað heiðargæsa í heiminum. Svæðið er einnig verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi samkvæmt Ramsarsamningnum. Á tímabilinu 1. maí til 10. júní er öll umferð á jörðu niðri um varplönd heiðargæsa bönnuð.

Umhverfisstofnun bendir einnig á að á fleiri friðlýstum svæðum er aðgengi almennings takmarkað yfir varptíma fugla eða til verndar lífríki.

Á friðlýsta svæðinu í Flatey er öll umferð óheimil á tímabilinu 15. apríl til 15. ágúst nema með leyfi ábúenda eða Umhverfisstofnunar.

Í Grunnafirði er á tímabilinu 15. apríl til 15. júlí bannað að fara í eyjar og sker nema þeir sem hafa nytjarétt.

Umferð óviðkomandi er bönnuð út í Gróttu á tímabilinu 1. maí til 15. júlí.

Í Guðlaugstungum er umferð um varplönd heiðargæsar bönnuð á tímabilinu 1. maí til 20. júní.

Í Hrísey í Reykhólahreppi er umferð um eyjuna bönnuð á tímabilinu 15. apríl til 15. júlí án heimildar Umhverfisstofnunar.

Við Kasthúsatjörn og við Bakkatjörn er fólk beðið um að trufla ekki fuglalíf á tímabilinu 1. maí til 1. júlí og er lausaganga hunda bönnuð.

Einnig er lausaganga hunda bönnuð í friðlandinu við Vífilsstaðavatn en á tímabilinu 15. apríl til 1. júlí eru allir hundar bannaðir inni á svæðinu.

Við Miklavatn er öll umferð óviðkomandi fólks um friðlandið bönnuð á tímabilinu 15. maí til 1. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert