„[Ég] held að þetta stöðuga málþóf hafi spillt mörgum þeim þingmönnum sem settust nýliðar í gamla salinn vorið 2009 eða 2007. Þeir eru hættir að vanda sig í ræðustól, finnst í lagi að segja hvað sem vera skal,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, um ástandið á Alþingi þessi dægrin.
Mörður skrifaði pistil á vefsvæði sitt fyrr í kvöld, en eins og kunnugt er stendur yfir umræða á Alþingi um breytingar á stjórnarráðinu. „Það er enginn að hlusta, það skiptir engu máli hvað þeir segja, það er bara að klára mínúturnar fimm og fara svo í andsvaraleikritið á eftir við þrjá eða fjóra kollega í tíu-tólf mínútur í viðbót,“ segir Mörður og bætir við að reglur sem áttu að slá á málþóf hafi raun gert það mun auðveldara.
Þá bendir hann á að fyrir tuttugu mínútna ræðu þurfi jafnvel vanur maður að undirbúa sig, vita að minnsta kosti sirka hvað hann ætlar að segja og í hvaða röð – þá þarf helst að hafa einhverja punkta og vera klárlega tilbúinn með endinn. „Fyrir fimm mínútna málþófsræðu þarf þokkalega þjálfaður þingmaður ekki einusinni að depla auga, bara opna munninn og láta vaða þangað til slegið er í bjölluna.“
Ennfremur segir Mörður að málþófið snúist yfirleitt gegn þeim sem þæfir. „Hann agar ekki mál sitt, skipar efninu ekki niður á skipulegan hátt, gætir ekki að sér í stíl og orðbragði, hættir að bera virðingu fyrir því sem hann er að gera: Tjá sig frammi fyrir þjóðinni sem þjóðkjörinn fulltrúi á alþingi Íslendinga.“