Fréttavefur bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal fjallar í dag um skuldabréfaútgáfu íslenska ríkisins sem fram fór nýverið og segir hana til marks um að Ísland sé að ná sér á strik eftir efnahagskrísuna á sama tíma og evruríki eins og Írland og Portúgal hafi ekki aðgang að alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.
Fram kemur í umfjölluninni að fjárfestar tengi Ísland við hin Norðurlöndin en ekki ríki á jaðri evrusvæðisins sem lent hafi í miklum efnahagserfiðleikum. Það sem einkum hafi hjálpað Íslendingum að koma efnahagsmálum sínum aftur á réttan kjöl hafi verið sjálfstæð peningamálastefna og gjaldmiðill sem evruríkin hafi ekki.
Haft er eftir Cosimo Marasciulo, framkvæmdastjóra hjá bandaríska fjárfestingarfyrirtækinu Pioneer Investments að útflutningur Íslands hafi orðið samkeppnishæfari vegna þess sveigjanleika sem sjálfstæður gjaldmiðill hafi skapað. „Það fjarlægði þær neikvæðu afleiðingar sem urðu vegna hrunsins og þetta er nokkuð sem er augljóslega ekki að gerast í Evrópu.“
Einnig er rætt við Jamie Stuttard hjá alþjóðlega fjárfestingafélaginu Fidelity Investments sem tekur í sama streng. Hann segir að Ísland og Írland hafi verið í svipaðri efnahagslegri stöðu þegar efnahagskreppan skall á löndunum. Íslendingar hafi orðið fyrir miklum skelli strax í byrjun en væru greinilega búnir að ná sér eftir það.
Þá er að lokum vísað í skuldatryggingarálagið á Ísland sem fjárfestar horfi til þegar þeir meti hversu öruggar fjárfestingar eru í ljósi áhættunnar af greiðsluþroti. Skuldatryggingaálag Íslands sé nú sambærilegt við önnur ríki Evrópusambandsins en þau sem átt hafa í mestum efnahagserfiðleikum.