Tifandi tímasprengja í Mývatni

Mývatn
Mývatn mbl.is/Rax

Í Ytriflóa Mývatns liggur 1000 lítra olíutankur, sennilega fullur af olíu, sem týndist af dráttarbáti Kísiliðjunnar hf. síðasta sumarið sem hún starfaði. Þetta kemur fram í viðauka við verndaráætlun Mývatns og Laxár. Þetta kemur fram í vikublaðinu Akureyri í dag.

„Mér finnst þetta afleitt,“ segir Árni Einarsson, líffræðingur hjá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, en Mývatnssvæðið er sérlega viðkvæmt. Þar er, auk náttúrufegurðarinnar, búsvæði margra fuglategunda á Íslandi og silungsveiði. Kísiliðjan var starfrækt nokkra kílómetra frá vatnsbakkanum fram til ársins 2004 en kísilgúr var unninn úr leðju sem dælt var upp af botni Mývatns.

Samkvæmt upplýsingum Árna varð óhapp síðustu dagana sem dráttarbátur Kísiliðjunnar í Mývatnssveit var starfræktur. Munaði minnstu að báturinn sykki og í látunum rann tankurinn í vatnið. Starfsmenn urðu þess ekki varir fyrr en þeir sigldu í land. Ótækt var talið að liggja með tifandi mengunartímasprengju í vatninu og var leitað nokkrum sinnum sumarið 2004 en án árangurs. Virðist sem málið hafi ætíð farið furðu hljótt.

Talið er að tankurinn liggi á svæði austan Slútness. Um tíma stóð bauja  þar sem starfsmenn töldu líklegast að tankurinn hefði horfið en baujan er löngu horfin í dag. Árni segir erfitt að kalla menn til ábyrgðar þar sem átta ár eru liðin síðan Kísiliðjan hætti störfum, segir i vikublaðinu Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert