Verkefni lögreglu verði ítarlega skilgreind

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis leggur skipuð verði nefnd níu fulltrúa til að fjalla um löggæslumál hér á landi. Þetta kemur fram í tillögu til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

Í áliti nefndarinnar með breytingartillögu segir að ráðherra eigi að leggja tillögu til þingsályktunar um löggæsluáætlun fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2013.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að nefndin verði skipuð fulltrúum þeirra þingflokka sem eigi sæti á Alþingi sem og fulltrúum hagsmunaaðila. Ætlunin sé að fyrir hendi verði skýr stefna um hvernig löggæslumálum á Íslandi skuli háttað.

Í greinargerð með tillögunni, sem nefndin leggur til að verði samþykkt, kemur fram að hún miði að því að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Jafnframt er tekið fram að tilgangurinn sé að efla kostnaðarvitund þingsins um verkefni lögreglu en henni eru með lögum falin margs konar verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert