Vinnumálastofnun vinnur nú að átakinu Vinnandi vegur sem ætlað er að skapa atvinnuleitendum um 1500 störf. 600 manns höfðu verið ráðnir síðastliðinn föstudag fyrir tilstilli átaksins sem stendur fram á sumar.
Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri vinnumiðlunar og ráðgjafarsviðs Vinnumálastofnunar, telur árangurinn góðan en segir jafnframt að atvinnuleitendur mættu vera fyrr að taka við sér. „Við erum nokkuð ánægð með þennan árangur sem náðst hefur. Þetta er frábært tækifæri fyrir atvinnuleitendur. Við þekkjum dæmi þess að fólk sem hafi verið án atvinnu í 4 ár hafi loks fengið vinnu. Aftur á móti höfum við heyrt frá ráðningarskrifstofunum að þær hafi í sumum tilfellum búist við betri viðbrögðum og að fáir hafi sótt um þau störf sem eru í boði. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Sumir hafa verið lengi atvinnulausir og hafa oft fengið neitun. Fyrir vikið eru þeir kannski ekki nægilega duglegir að sækja um,“ segir Hrafnhildur Tómasdóttir.
Um 1300 störf eru í boði sem stendur. Stefnt er að því að 1500 störf verði í boði áður en frestur fyrirtækja til þess að vera með í átakinu rennur út sem er 31. maí. Eftir það hafa fyrirtæki til 1. júlí til þess að ráða fólk.
Vinnumálastofnun borgar fyrirtækjum atvinnuleysisbætur upp á um 167.000 kr auk 8% í lífeyrissjóð fyrir viðkomandi einstakling.
Fjórar ráðningaskrifstofur sjá um ráðningar í átakinu. Þær eru Talent, HH ráðgjöf, Hagvangur og Hugtak.
Vala Ágústsdóttir ráðgjafi sér um ráðningar fyrir Hagvang. „Þetta er frábært framtak og gaman að sjá hvað það eru mörg fyrirtæki að taka þátt í þessu. Einhver umræða hefur verið um að fólk hafi ekki sótt um. En ég vil taka það fram að það er líka hópur sem er mjög duglegur að sækja um,“ segir Vaka Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi.