Hildigunnur Árnadóttir félagsráðgjafi hjá Grindavíkurbæ tók hvatningarátakið Hjólað í vinnuna svo bókstaflega að hún hjólaði frá Hafnarfirði og í vinnuna hjá Grindavíkurbæ í morgun.
Það tók hana um þrjá tíma að hjóla þessa 50 km en hún lenti í erfiðum hliðarvindi á Reykjanesbraut og svo mótvindi á Grindavíkurvegi, samkvæmt frétt á vef Grindavíkur.
Hildigunnur sagði að þessi hjólreiðatúr hefði tekið vel á í morgun en verið ljómandi skemmtilegur og góð byrjun á deginum þótt hún hefði blótað mótvindinum. Hún sagði jafnframt að efasemdir samstarfsfélaga um að hún myndi láta verða af þessari hugmynd hefðu virkað hvetjandi á sig og hún ákveðið að láta slag standa.
Hildigunnur býr í Reykjavík en lagði af stað í vinnuna í morgun á hjólinu sínu frá húsi systur sinnar í Hafnarfirði. Hún segist ekki eiga von á því að hjóla alla þessa leið í vinnuna á hverjum degi í hvatningarátakinu, þetta dugi í bili.