Breytingar á stjórnarráðinu samþykktar

mbl.is/Hjörtur

Samþykkt var á Alþingi þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði sem felur það í sér að ráðuneytum verði fækkað úr tíu í átta meðal annars með því að stofnað verði eitt atvinnuvegaráðuneyti og að fjármálaráðuneytið og að efnahags- og viðskiptaráðuneytið verði sameinuð. Breytingin var samþykkt með 28 atkvæðum gegn 21.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði með samþykkt þingsályktunartillögunnar en Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sat hjá og Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greiddi atkvæði gegn henni.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði áður en atkvæðagreiðslan fór fram að um væri að ræða lokahnykkinn í stjórnarráðsbreytingum og að þær myndu skila sér vel fyrir stjórnsýsluna. Margir fleiri þingmenn tóku til máls áður en til atkvæðagreiðslunnar kom.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls á eftir Jóhönnu og sagðist vitanlega vona að breytingarnar á stjórnarráðinu yrðu til góðs en hins vegar hefði engan veginn verið sýnt fram á það að svo yrði.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fögnuðu þeim breytingum sem þingsályktunartillagan gengi út á og töldu þær mikilvægar. Fagnaði Álfheiður því sérstaklega að staða umhverfismála yrðu styrkt með breytingunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi þingsályktunartillöguna harðlega. Nauðsyn þeirra breytinga sem tillagan kvæði á um væri órökstudd og kostnaðurinn af henni yrði mikill og bættist við þann mikla kostnað sem hefði þegar komið til vegna ríkisstjórnarinnar.

Jón Bjarnason lýsti andstöðu sinni við þingsályktunartillöguna og sagði hana meðal annars ganga gegn samþykktum síns flokks. Ítrekaði hann að breytingarnar væru meðal annars að kröfu Evrópusambandsins.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist meðal annars efast um að þær breytingar sem þingsályktunartillagan kvæði á um lifðu af ríkisstjórnarskipti.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók undir með Ragnheiði og sama sjónarmið kom fram hjá fleiri þingmönnum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert