Bríó seldist upp eftir sigurinn

Bríó
Bríó mbl.is

Sigur Bríó, bjórs Ölgerðarinnar, á World Beer Cup 2012 um síðustu helgi varð til þess að sala á bjórnum tók kipp í þeim þremur Vínbúðum ÁTVR sem eru með hann í sölu. Samkvæmt upplýsingum frá Heiðrúnu seldust það sem áður var talið mánaðarbirgðir af Bríó á örfáum dögum og var hann uppseldur í dag.

Bríó var bruggaður sérstaklega fyrir Ölstofu Kormáks og Skjaldar í Borg brugghúsi. Bragð hans og séreinkenni voru þróuð í samvinnu við eigendur Ölstofunnar. Þegar hann hins vegar hafði skapað sér nafn var framleiðsla hans færð yfir til Ölgerðarinnar, í nóvember sl.

Á sama tíma var ákveðið að Bríó færi í sölu í Vínbúðum ÁTVR. „Hann fór í Vínbúðir fyrst í nóvember og það er engum bjór gott að koma inn þá,“ segir Óli Rúnar Jónsson vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. „Hann kom inn í búðir nokkrum dögum á undan jólabjórnum, en hefur verið að vinna sig smátt og smátt upp í sölu á þessu ári.“

Óli Rúnar segir að Ölgerðin geri ráð fyrir mikilli söluaukningu í kjölfar sigursins en um er að ræða stærstu bjórkeppni heims. Bríó varð hlutskarpastur í keppni 74 bjórtegunda í sínum flokki, þ.e. þýsks pilsners. „Það er verið að auka framleiðslu og við höfum heyrt af því að talsvert sé um að fólk sé að smakka hann í fyrsta skipti í kjölfar verðlaunanna og líki vel.“

Eins og áður segir fæst Bríó aðeins í þremur Vínbúðum, þ.e. Heiðrúnu, Skútuvogi og Kringlunni. Óli Rúnar segir þó söluaukninguna vonandi verða til þess að tryggja honum þá dreifingu sem hann á skilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert