„Kínversk fyrirtæki og Kínverjar fjárfesta nú um víða veröld í krafti efnahagslegar velgengni, mikils hagvaxtar og gildra gjaldeyrissjóða. Hvar sem sést olíubrák, gaslykt er í lofti eða glittir á málma í grjóti eru hráefnahungraðir Kínverjar til staðar,“ segir Eiður Svanberg Guðnason, fv. sendiherra og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Eiður játar að því meira sem hann hugsar um áform Huangs á Hólsfjöllum því fleiri spurningar vakni og aðvörunarljós kvikni. Það er eitthvað sem gerir að verkum að þetta gengur ekki alveg upp. Bitarnir í púsluspilinu raðast ekki rétt saman, segir Eiður
Þá segir Eiður m.a. í grein sinni: „Það er reyndar líka ógeðfellt að þessi tilvonandi gestur á Íslandi skuli guma af því í fjölmiðlum á heimaslóð að hafa knésett íslenskan ráðherra. Það segi ég þótt ég hafi engar mætur á pólitískum verkum ráðherrans sem í hlut á. Þau ummæli vekja Huang ekki samúð eða stuðning hér á landi.
Vítin eru til að varast þau. Þess vegna skulum við stíga til jarðar með mikilli gát þegar talað er um 16 milljarða fjárfestingar á reginfjöllum á Íslandi. Látum ekki plata okkur.“