„Það er alveg skýrt að við hjá Gagnaveitunni eigum að fá leyfi hjá eigendum fyrir framkvæmdum í eða á þeirra eignum, hvort sem það er í eigu sveitarfélaga eða einkaaðila,“ segir Sigurður Arnar Friðriksson, deildarstjóri hjá Gagnaveitunni, um mál konu sem kom að mönnum grafa í garði sínum.
Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi kom konan að fjórum verkamönnum grafa sundur garðinn sinn og rífa upp túnþökur. Reyndust þeir vera að leggja ljósleiðara sem aldrei var beðið um.
Fréttin var mikið lesin, um hana bloggað og athugasemdir gerðar við bloggfærslurnar. Þar á meðal umræddur deildarstjóri hjá Gagnaveitunni. Í athugasemd við bloggfærslu segir Sigurður, að áður en framkvæmdir í hverfinu hófust fóru starfsmenn Gagnaveitunnar í að afla leyfis til þess að leggja ljósleiðaralagnir á lóðum hjá íbúum. „[L]angflestir heimila það enda vita íbúar að ljósleiðaratenging þýðir almennt aukin lífsgæði miðað við kopartengingu.“
Þá segir Sigurður að oft sé það þannig, að ekki náist í alla íbúa til að fá heimild fyrir framkvæmdinni. Engu að síður sé þó hafist handa við framkvæmdir. „Það veitir okkur hinsvegar engan rétt til að fara inn á lóðir án heimilda og þá er reynt á framkvæmdatímanum að fá umrædda heimild, þannig að þessi heimili verði ekki útundan þegar allt hverfið er orðið ljósleiðaratengt.“
Í umræddu tilviki sé um yfirsjón að ræða og það hafi ekki verið ásetningur verktakans eða Gagnaveitunnar að framkvæma verkið í óþökk íbúans. „Við munum af sjálfsögðu setja okkur í samband við viðkomandi og leita leiða til að fá sátt í málið.“