Lilja Mósesdóttir þingmaður segir að hóta ætti lífeyrissjóðum með skatti á inngreiðslur í lífeyrissjóði ef þeir vilji ekki deila byrðum af skuldavanda heimilanna. Að öðrum kosti muni þeir ganga að öldruðu fólki sem veitti börnum sínum lánsveð til íbúðarkaupa.
Í frétt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að lífeyrissjóðir hyggist ekki deila kostnaði með ríkinu af niðurfellingu skulda fólks með lánsveð niður að 110% af fasteignaverði. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðir eru bundnir af lögum sem heimila ekki að gefa eftir innheimtanlegar eignir.
Lilja tók málið upp í störfum þingsins þar sem hún lagði til að grípa ætti til hótana gagnvart lífeyrissjóðum. Hóta ætti skatti á inngreiðslur í lífeyrissjóði.
„Lífeyrissjóðirnir ætla að ganga að öldruðu fólki sem lánaði börnunum sínum lánsveð. Ég mælti fyrir því að ríkissjóðirnir ættu að hóta því að leggja á skatta á inngreiðslur í lífeyrissjóði,“ segir Lilja.
„Skuldavandi heimilanna er það brýnt verkefni að það þurfa allir í samfélagin að koma að máli og taka hluta byrðanna á sig. Ef það er ekki gert stöndum við uppi með fjölskyldur sem eiga ekki fyrir mat eða leigu,“ segir Lilja.