Málþóf þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um breytingar á stjórnarráðinu mistókst segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á heimasíðu sinni í dag en síðari umræðu um málið lauk í gær eftir miklar umræður á Alþingi undanfarnar vikur. Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um breytingarnar var síðan samþykkt í þinginu í dag.
Björn Valur segir að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi „talað sig máttlausa gegn því að fækka ráðuneytum og ráðherrum í ríkisstjórn“. Tilgangurinn með því hafi verið „að ná tökum á öðrum málum ríkisstjórnarinnar s.s. stjórn fiskveiða, rammaáætlun og nýrri stjórnarskrá. Það mistókst að þessu sinni hjá andstöðunni sem sat uppi með það í gær að vera í málþófi um rangt mál sem hvergi nýtur samúðar og að auki á röngum tíma“.
Segir Björn að í gær hafi því tekist „með nokkru harðfylgi að koma skikk á störf þingsins a.m.k. út næstu viku sem vonandi verður til að betri mynd dregst upp af Alþingi en blasað hefur við að undanförnu“.
Heimasíða Björns Vals Gíslasonar