Starfshópur um staðgöngumæðrun ekki verið stofnaður

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurðist fyrir um það á Alþingi í dag hvers vegna starfshópur um staðgöngumæðrun hefði ekki verið skipaður en hann hefði átt að skipa samkvæmt þingsályktunartillögu sem samþykkt hefði verið 18. janúar síðastliðinn.

„Þann dag var samþykkt þingsályktunartillaga með 33 greiddum atkvæðum gegn 13, yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sem samþykkti þingsályktun um að fela hæstvirtum velferðarráðherra að skipa starfshóp til að semja frumvarp að undangenginni mikilli og ítarlegri skoðun á þessu máli. Nú eru tæpir fjórir mánuðir liðnir og enn hefur ekkert heyrst af skipan þessa starfshóps og því spyr ég háttvirtan formann velferðarnefndar hvort hún geti upplýst okkur um stöðu þessa máls,“ sagði Ragnheiður og bendi orðum sínum til Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formanns velferðarnefndar Alþingis.

Álfheiður sagði hins vegar að málið væri ekki lengur í höndum nefndarinnar heldur væri það komið til velferðarráðherra í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögunnar á Alþingi. „Ég get því ekkert upplýst um stöðu málsins, það er komið í hendur framkvæmdavaldsins,“ sagði hún í svari sínu og bætti því við að það væru ný tíðindi fyrir sig að umræddur starfshópur hefði ekki verið skipaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka