Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að verja 100 þúsund Bandaríkjadölum, eða um 13 milljónum íslenskra króna, til neyðaraðstoðar Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) á Sahel-svæðinu og í Suður-Súdan. Neyðarástand ríkir á svæðinu og yfirvofandi hætta á hungursneyð.
Sahel-svæðið er í vesturhluta Afríkur sem nær til Búrkína Fasó, Tsjad, Gambíu, Malí, Máritaníu, Níger og Senegal. Orsök neyðarástandsins þar má rekja til þurrka, hás kornverðs og jarðvegseyðingar, sem bæst hafa við viðvarandi fátækt og viðkvæmni samfélaganna á svæðinu.
Í Suður-Súdan er yfir helmingur þjóðarinnar, eða 4,7 milljónir manna, í hættu vegna slæmrar uppskeru og langvarandi ófriðar, en WFP hefur sett landið í hæsta áhættuflokk.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að hjálpar- og þróunarstofnanir leggi mikla áherslu á, að alþjóðasamfélagið bregðist skjótt við, áður en ástandið versni til muna. Þær undirstriki að alþjóðasamfélagið læri af reynslunni frá Sómalíu frá því í fyrra, en þá var ekki brugðist af nægilegri skyndingu við hættumerkjum um yfirvofandi hungursneyð.