Umfangsmestu breytingar frá upphafi

mbl.is/Hjörtur

„Markmið þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á stjórnarráðinu á kjörtímabilinu eru að gera það skilvirkara og skerpa og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta. Samhliða fækkun ráðuneyta hafa verið gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem m.a. fela í sér aukna áherslu á samvinnu og samstarf milli ráðuneyta,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna samþykktar þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag um breytingu á ráðuneytaskipan.

Breytingin felur í sér að ráðuneytum fækkar úr tíu í átta. Í stað iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, í stað efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi fjármála- og efnahagsráðuneyti og í stað umhverfisráðuneytis komi umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

„Áður höfðu félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinast í velferðarráðuneyti. Sömuleiðis höfðu og dóms- og mannréttindamálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinast í innanríkisráðuneyti 1. janúar 2011,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að með breytingunum sé lögð lokahönd á þá endurskipulagningu á stjórnarráðinu sem boðuð hafi verið í upphafi yfirstandandi kjörtímabils og að þær séu ennfremur þær umfangsmestu sem ráðist hafi verið í frá upphafi. Gert sé ráð fyrir að breytingarnar taki gildi hinn 1. september næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka