Andri er lögmaður vikunnar hjá The Times

Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður og verjandi Geirs H. Haarde í máli Landsdóms gegn forsætisráðherranum fyrrverandi, er lögmaður vikunnar að mati Lundúnablaðsins The Times.

Blaðið gefur út aukablað um lögfræðileg málefni í viku hverri og þar er fastur dálkur þar sem lögmaður vikunnar er útnefndur og grein gerð fyrir viðkomandi. Blaðið fylgdist grannt með réttarhöldunum yfir Geir, eins og margir aðrir erlendir fjölmiðlar, og telur Andri að hann hafi hlotið útnefninguna vegna þess.

„Ég held að þetta sé aðallega vegna þess að The Times fylgdist vel með réttarhöldunum, en í blaðinu er fylgst með áhugaverðum málum,“ sagði Andri í samtali við mbl.is.

Í viðtali við Andra í The Times er hann meðal annars spurður hvaða áskoranir hafi falist í máli Geirs. „Þetta var einstakt mál,“ svarar Andri. „Þing landsins ákvað að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra og það hefur aldrei áður gerst á Íslandi. Að auki var málatilbúnaður byggður á gömlum hugmyndum um mannréttindi.“

Ekki er vitað til þess að íslenskur lögmaður hafi hlotið þessa nafnbót fyrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert