Ungir sjálfstæðismenn á Akureyri telja húsmæðraorlof tímaskekkju og harma kaup Sjónlistamiðstöðvarinnar á plastmáli Jóhönnu Sigurðardóttur og segja þau vera misnotkun á almannafé.
Þetta kemur fram í ályktun sem Vörður sendi frá sér og samþykkt var á aðalfundi félagsins 26. apríl síðastliðinn.
Þeir telja að Vaðlaheiðargöng séu rökrétt skref í samgöngumálum og ekki sé verið að taka þau fram fyrir aðrar vegaframkvæmdir enda muni þau verða greidd að fullu af veggjöldum.
„Vörður telur húsmæðraorlof algjöra tímaskekkju. Þar fá húsmæður hvort sem þær þurfa á því að halda eða ekki 85% af ferðakostnaði greidd úr sjóði sem fjármagnaður er af sveitarfélögunum. Óeðlilegt er að konur fái peninga úr opinberum sjóðum til að ferðast á meðan aðrir hópar s.s. fatlaðir, sem sannarlega þurfa á ferðasjóði að halda eins og dæmin sanna, hafa ekki í neina feita sjóði að sækja,“ segir í ályktuninni.
Þá ályktar Vörður að framganga Evrópusambandsins gagnvart íslensku þjóðinni sé með öllu ótæk og því sé stjórnvöldum skylt að slíta aðildarviðræðum við sambandið strax.
„Vörður harmar þá misnotkun á almannafé sem Sjónlistamiðstöðin á Akureyri stóð fyrir með kaupum á plastmáli notuðu af Jóhönnu Sigurðardóttur á 105 þúsund krónur. Fráleitt er að varalitafar skuli gefa plastmálinu bæði list- og verðgildi. Vörður hvetur til þess að starfsemi og greiðslur til Sjónlistamiðstöðvarinnar verði teknar til alvarlegrar endurskoðunar. Þessi framganga er móðgun við þá listamenn sem í opinbera sjóði sækja en ekkert fá,“ segir í ályktuninni.