„Maður verður að búa upp á þetta, það er engin miskunn. Þetta tókst í fyrra og hlýtur að takast núna,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, sauðfjárbóndi og ráðunautur á Holti í Þistilfirði. Bændur á Norður- og Austurlandi eiga ekki von á góðu næstu daga því spáð er slæmu vorhreti á morgun og mánudag.
Sigurður kvíðir ekki hreti í miðjum sauðburði, segir þetta vera ár sem menn eigi að gera ráð fyrir. Norðlendingar fengu mjög slæmt vor í fyrra og segir hann að þá hafi allt fé komist í hús hjá sér, svo verði líka nú.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að í Holti séu 380 hausar og í gær voru komin um 160 lömb. Féð er ekkert farið að fara út af viti að sögn Sigurðar. „Ég setti út nokkrar ær í fyrradag og þær eru við hús. Það væri dásamlegt að geta verið kominn með fimmtíu kindur út á gjöf og þær farnar að kroppa eitthvað. En það er ekki komin nein beit svo það þýðir ekkert að tala um það. Það er ekkert farið að gróa, enda búið að vera kalt og varla að frost sé farið úr jörðu.“