Í nóvember 2010 kynntu forystumenn ríkisstjórnarinnar verkefnalista á blaðamannafundi í Reykjanesbæ um aðgerðir til að örva atvinnulíf á Suðurnesjum. Skapa átti fjölda starfa og sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að taka þyrfti atvinnumálin föstum tökum.
Nú, átján mánuðum síðar, er atvinnuleysi á Suðurnesjum 12,2%.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, miklu meira þurfa að koma til en þau smáverkefni sem þó hafi ræst úr.
„Við ákváðum að þiggja brauðmolana sem okkur voru réttir... Við vonuðumst eftir góðu samstarfi um alvörumálin sem ekki hafði gengið að fá í gegn ... Virkjanaleyfi, sem voru forsenda fyrir því að unnt væri að semja um orku, voru tafin verulega,“ segir Árni sem telur umræðu stjórnvalda um Suðurnes, einkum vinstri manna, hafa aukið á doða og vonleysi íbúa. „Umræðan gefur til kynna að þar búi menntunarlítið og uppburðarlítið fólk með ónothæfar sveitarstjórnir, sem ekkert geri í atvinnumálum nema að hugsa um álver.“