Björgunarsveitarmenn aðstoða nú ökumenn sem hafa lent í vandræðum á Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi. Hríðarveður er nú skollið á um landið norðan- og austanvert. Að sögn Landsbjargar er ekkert ferðaveður á Steingrímsfjarðarheiði og eru ferðalangar beðnir að halda ekki á heiðina.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er verið að aðstoða franska ferðamenn á Klettshálsi, en þeir eru óvanir að aka í vetrarfærð. Felst aðstoðin í því að hjálpa fólkinu að aka niður.
Að sögn lögreglunnar á Ísafirði sitja margir bílar fastir á Steingrímsfjarðarheiði en þar er stórhríð sem og á Þröskuldum.
Búist er við að óveðrið muni ná hámarki síðdegis í dag og eru björgunarsveitarmenn til taks ef á þarf að halda.
Lögreglan á Akureyri og á Húsavík segja að þar sé nú éljagangur. Grasblettir séu orðnir hvítir en snjórinn nái aftur á móti ekki að setjast á göturnar. Nú sé um tveggja stiga hiti en búist sé við frosti síðdegis.
Lögreglan á Egilsstöðum tekur í sama streng en þar er farið að snjóa. Þá segir lögreglan að bílar séu farnir að festa sig á Fjarðarheiði og er búið að kalla út björgunarsveitir til að aðstoða ökumenn á heiðinni.
Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun, en búist er við hvassviðri eða stormi (15-23 metrum á sekúndu) á landinu.
Spáin er svohljóðandi:
Norðanátt, víða 15-23 metrar á sekúndu. Þurrt á S- og SV-landi, annars slydda eða snjókoma, en él NV-til síðdegis. Kólnandi, vægt frost fyrir norðan síðdegis. Heldur hægari norðanátt á morgun, en áfram hvasst austast. Þurrt S-lands, annars él, einkum á N- og NA-landi. Vægt frost, en hiti 0 til 6 stig að deginum syðra.