Kolfinna S. Magnúsdóttir segir að skólamál hafi vegið þyngst þegar hún tók ákvörðun um að slíta meirihlutasamstarfi D-lista í Garði og ganga til liðs við N-lista.
„Þetta snýst að mestu leyti um skólamál. Út kom skýrsla um skólamál og þar kemur fram að mörgu þarf að breyta í þeim efnum. Til að ná þeim markmiðum þarf að vinna í sátt með skólayfirvöldum. Ekki með yfirgangi eins og fráfarandi meirihluti gerði,“ segir Kolfinna S. Magnúsdóttir.
Kolfinna er fyrrverendi kennari auk þess sem tveir kennarar verða í núverandi meirihlutasamstarfi. Hún segir það ekki tengjast ákvörðun sinni.
„Þetta er lítið samfélag og fólk tengist eðlilega þvers og kruss. Við munum ekki hafa áhrif á þá vinnu sem hafin er við að velja nýja stjórnendur í skólanum,“ segir Kolfinna. N-listi og L-listi stefna að því að kynna formlega nýjan meirihluta á morgun.