Við tvo framhaldsskóla eru ekki starfandi íþróttakennarar og í þremur skólum er engin bókleg kennsla í íþróttum. Þetta kemur fram í skýrslu Capacent Gallups með niðurstöðum könnunar ýmissa þátta í íþróttakennslu í framhaldsskólum vorið 2011 og er hún byggð á svörum skólameistara í 32 framhaldsskólum.
Í skýrslunni kemur fram að meirihluti íþróttakennara, um 57% eru karlar og í átta skólum stunda ekki allir nemendur í reglulegu dagskólanámi íþróttir samkvæmt stundaskrá fyrstu fjögur árin.
Í öllum skólum er mæting lögð til grundvallar við einkunnagjöf í íþróttum og í meirihluta skólanna er jafnframt horft til virkni í íþróttatímum, framfara og bóklegrar þekkingar. Í 26 skólum er hægt að fá íþróttaiðkun utan skóla metna til eininga en viðmið vegna matsins eru mismunandi milli skóla.
Þá má geta þess að í 22 skólum geta nemendur fengið kennslu í sundi, í tíu skólum er boðið uppá sund sem valgrein, í átta skólum sem hluta af brautarkjarna og í tveimur skólum er sundkennsla bæði boðin sem valgrein og sem hluti af brautarkjarna.
Ráðuneytið hefur í kjölfar skýrslunnar óskað eftir skýringum og viðbrögðum þeirra skóla, sem ekki haga kennslu í íþróttum í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.