Hafa ekki lengur peninga til að taka grafir

mbl.is/Jim Smart

Kostnaður kirkjugarðanna við greftranir er í sumum tilvikum orðinn meiri en þær tekjur sem koma úr ríkissjóði. Mismunurinn væri þá greiddur af peningum sem ættu að fara í umhirðu garðanna og það bitnaði á ásýnd þeirra. Þetta kom m.a. fram á aðalfundi Kirkjugarðasambands Íslands sem haldinn var á laugardag.

 Aðalfundur Kirkjugarðasambands Íslands var haldinn á Hótel Laka í Skaftárhreppi laugardaginn 12. maí og þar var saman kominn 85 manna hópur sem tengist málefnum kirkjugarða á landinu. Dagskráin var fjölbreytt en efst á baugi voru erindi um grafartekt, þ.e. undirbúning, framkvæmd og frágang. Hjá aðalfundarfulltrúum komu fram miklar áhyggjur af minnkandi framlagi ríkisins til málaflokksins og nokkur dæmi voru nefnd um að kostnaður við greftranir væri orðinn meiri en þær tekjur sem kæmu úr ríkissjóði. Mismunurinn væri þá greiddur af peningum sem ættu að fara í umhirðu garðanna og það bitnaði á ásýnd þeirra.

Fram kom á fundinum að þróun framlags ríkisins til málaflokksins væri vel undir meðalframlagi til annarra stofnana sem eru innan innanríkisráðuneytis, þó að munurinn væri ekki eins sláandi og rýrnun sóknargjalda sem slær öll met varðandi niðurskurð hjá fjármálaráðuneytinu eftir hrun, segir í tilkynningu. Einn fundarmanna hafði á orði að það nægði að orðið „kirkja“ væri í nafni málaflokksins þá væri tryggt að um hámarksniðurskurð væri að ræða.

Aðalfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun sem send verður alþingismönnum:

 „Aðalfundur Kirkjugarðasambands Íslands, haldinn á Hótel Laka laugardaginn 12. maí 2012, skorar á alþingismenn að hækka framlag til kirkjugarða að því marki, að þróun lögboðins framlags ríkisins til kirkjugarða fylgi þróun framlags ríkisins til annarra stofnana ríkisins á vegum innanríkisráðuneytis á tímabilinu 2008 til 2012. Að lokinni þeirri leiðréttingu verði svonefnt einingaverð til kirkjugarða uppfært til þess verðs sem gildandi samningur milli ríkisins og Kirkjugarðaráðs gerir ráð fyrir og mundi sú uppfærsla gilda fyrir fjárhagsárið 2013.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert