Hvorki Skútustaða- né Tjörneshreppur munu taka þátt í einkahlutafélagi um kaup og leigu Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, og ólíklegt er að Þingeyjarsveit taki þátt.
Áætlað er að hlutafélag sem sveitarfélögin stofnuðu í kringum verkefnið kaupi ríflega 70% hlut í Grímsstöðum. Stofnfundur félagsins var haldinn á föstudaginn.
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur gefið út að afar ólíklegt sé að hún taki þátt í verkefninu. Að sögn Arnórs Benónýssonar, varaoddvita sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, kom á óvart hversu litlar upplýsingar eru til staðar um verkefnið.
Í Morgunblaðinu í dag segir Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings eðlilegt að útfærsla verkefnisins sé ekki fullmótuð á þessu stigi málsins. „Atvinnuþróunarfélögin hafa unnið að útfærslu á framkvæmdinni og eru nú að taka á móti athugasemdum og ábendingum. Þess vegna liggur ekki skýrt fyrir hvernig þetta kemur til með að verða, eðli málsins samkvæmt.“