Þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu á Alþingi í dag fá nánari upplýsingar um viðræður stjórnarflokkanna og þingmanna Hreyfingarinnar, sem einn þingmaður kallaði raunar „atvinnuviðtöl í Ráðherrabústaðnum."
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks spurði Steingrím J. Sigfússon, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hvort einhver ráðningarsamningur lægi fyrir eftir þessi viðtöl sem hefðu augljóslega snúist um að styrkja ríkisstjórnina.
Steingrímur sagði að samtöl hefðu átt sér stað í kringum jól og áramót á sama grunni og það sem átti sér stað í Ráðherrabústaðnum sl. sunnudag. Að hluta til hefðu sömu stóru málin hefðu verið undir, einkum það baráttumál að koma stjórnarskrárbreytingum áfram og láta ekki drepa þær með málþófi eða öðrum ómálefnalegum hætti. Þá hefði ýmislegt annað borið á góma.
Steingrímur lagði áherslu á að af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar hefðu viðræðurnar ekki snúist um að þingmenn Hreyfingarinnar veittu ríkisstjórninni hlutleysi. „Það hefur borið á góma og Hreyfingin hefur útlistað hvernig hún hefur boðið það en það hefur ekki verið upp á borðum af okkar hálfu," sagði Steingrímur.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að fram hefði komið í gær, að Hreyfingin hefði gert ríkisstjórninni tilboð að verja hana vantrausti að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Nokkur mál hefðu verið tiltekin en eitt það helsta virtist vera að ríkisstjórnin beitti sér fyrir afnámi verðtryggingu og lækkun skulda heimildanna. Þessum málum eigi að ljúka í þessari viku.
Spurði Ragnheiður Elín hvort ríkisstjórnin hefði í hyggju að koma með slíkar tillögur fyrir helgi. Steingrímur sagði að samtölin við Hreyfinguna hefðu snúist um nokkur mikilvæg mál, sem Hreyfingin hefði lagt mikla áherslu á og sem ríkisstjórnin væri í mörgum tilfellum sammála Hreyfingunni um. Vel þekkt væri m.a. að þingmenn Hreyfingarinnar væru miklir áhugamenn um að stjórnarskrárbreytingar næðu fram að ganga. Þá gilti það sama um skuldavanda heimila og verðtrygginguna. Spurningin væri hins vegar hvort menn næðu saman um leiðir. Því væri ekki að leyna að hugmyndir Hreyfingarinnar væru viðamiklar og gætu orðið nokkuð flóknar í framkvæmd.
„Þetta mál er í skoðun. Við höfum að sjálfsögðu tekið vel það að fara yfir þessi mál og ræða þau og finna hvar fletir liggja saman og koma brýnum málum áleiðis eftir því sem samstaða getur orðið um," sagði Steingrímur.