Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór hörðum orðum um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í útvarpsviðtali í Bylgjunni á sunnudag. Þar sagði hann forsætisráðherra vera í stríði gegn sér og hefði aldrei fyrirgefið honum að hafa vísað Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Hún telur þetta vera dauðasök,“ sagði forsetinn.
Forsetinn nefndi sérstaklega ræðu Jóhönnu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í mars á þessu ári sem dæmi um þá ýmsu „leiðangra“ sem hann segir hana hafa farið í gegn sér. Í þeirri ræðu gerði forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar það að umtalsefni að mikil gerjun væri í samfélagsumræðunni og benti á að ekki færri en tíu mismunandi aðilar stefndu á framboð til Alþingis. Sagði hún svo: „...og ýmislegt bendir til þess að sitjandi forseti hyggist stíga enn frekari skref í að færa embætti forseta Íslands inn á átakavettvang stjórnmálanna – þvert gegn þeim hugmyndum og hefðum sem gilt hafa um hlutverk forsetans sem sameiningartákns þjóðarinnar.“
Í viðtali við RÚV sagði Jóhanna svo að mikilvægt væri að forseti hverju sinni skildi stjórnskipun Íslands með þeim hætti sem ætti að skilja hana og hann færði sig ekki inn á hinn pólitíska vettvang.
Fleiri skot hafa þó gengið á milli þessara tveggja æðstu forystumanna þjóðarinnar á síðustu misserum. Það var í maí árið 2010 sem bréfaskipti á milli forsætisráðuneytisins og forsetaembættisins hófust um siðareglur fyrir embættið. Óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá forsetaembættinu um hvernig yrði staðið að því að móta reglur um embættið með vísan í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Ólafur Ragnar hélt því fram að bréf forsætisráðuneytisins byggðist á misskilningi og bauð Jóhönnu að draga bréfið til baka á fundi þeirra í júní. Forsætisráðuneytið ítrekaði hins vegar fyrirspurn sína í bréfi í byrjun júlí.
Þessu bréfi svaraði forsetinn um miðjan júlí. Sagði hann engin fordæmi fyrir bréfaskrifum forsætisráðuneytisins og að efni þeirra og form væru í engu samræmi við stjórnskipan lýðveldisins, stöðu forsætisráðherra innan ríkisstjórnar né sjálfstæði forseta og Alþingis. Ennfremur sagði forsetinn að bréfin væru „rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis“.
Í svarbréfi forsætisráðuneytisins er þessum ásökunum hafnað og því haldið fram að ráðuneytið hefði aðeins verið að óska eftir upplýsingum frá forsetaembættinu. Mótmælti ráðuneytið framsetningu forsetans á málinu.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var ósátt við Ólaf Ragnar Grímsson forseta í september í fyrra og taldi hann hafa vegið ómaklega að ríkisstjórninni.
Í viðtali við Ríkisútvarpið hafði forsetinn látið hafa eftir sér að ríkisstjórnin hefði látið undan þrýstingi og ofbeldi Evrópuþjóða með því að fallast á kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.
Kvaðst Jóhanna ætla að ræða ummælin við forsetann við fyrsta tækifæri.