Dánartíðni karla, sem misst hafa maka sína, er tvöfalt hærri en meðal giftra karla. Ekklar veigra sér við að leita sér stuðnings fagfólks og 20% þeirra segjast nota áfengi í óhófi til að deyfa sorgina. Samfélagið þarf að endurskoða viðhorf sitt til sorgar og syrgjenda.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn Braga Skúlasonar, sjúkrahúsprests á Landspítalanum sem rannsakað hefur íslenska ekkla í doktorsnámi sínu.
Bragi bar saman tvo hópa karlmanna, sem allir eru fæddir á árabilinu 1924-1969 og búsettir eru á svipuðum slóðum. Helmingur karlanna eru ekklar, hinir eru giftir. Ekklarnir misstu eiginkonur sínar á árunum 1999-2001.
Tvöfalt hærri dánartíðni
Hópnum var fylgt eftir og Bragi skoðaði sérstaklega dánarhlutfall mannanna á rannsóknartímabilinu. „17,3% ekklanna létust á rannsóknartímabilinu en einungis 8% giftu karlanna í samanburðarhópnum,“segir Bragi.
Hann segir að í þessu sambandi hafi dánarorsök eiginkvennanna einnig verið skoðuð og hvort til staðar væru sameiginlegir lífsstílsþættir sem væru á bak við þessa þróun. Ekki væri hægt að rekja þennan mismun á dánartíðni eingöngu til fyrstu áfallaviðbragða og streitu vegna fráfalls maka, þar sem rannsóknin hefði náð yfir langan tíma.
„Svo verður líka að hafa í huga að það, að konan deyi á undan, er engan veginn dæmigert í íslensku samfélagi, því konur lifa almennt lengur. “
Áfengi til að deyfa sorgina
Að sögn Braga notar einn af hverjum fimm ekklum áfengi til þess að deyfa sorgina eftir fráfall maka og einnig er hætt vi að aukning verði á þáttum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu, svo sem minni hreyfing, lakara mataræði og auknar reykingar.
Rannsóknin leiddi margt annað í ljós, til dæmis það að karlar leita miklu síður til stuðningshópa en konur. „Það er áberandi hvað karlar sækja síður í slíka hópa. Það er eins og þeim finnist minnkun að leita stuðnings hjá öðrum og þeir halla sér mikið að fjölskyldunni.“
Hann segir marga karla í þessum sporum upplifa einsemd. „Mörgum þeirra finnst þeir vera einangraðir, þeir eiga oft færri vini heldur en konur. Þeir eiga oft marga kunningja en fáa vini, þeir eru oft í samkeppnistengslum við aðra karla og ræða því ekki tilfinningamál við þá.“
Bragi segir að 1/3 af körlunum í rannsókninni hafi sagt að samband við nána vini væri mikilvægt. „Það þýðir að 2/3 finnst ekki skipta máli að eiga nána vini, oft er eiginkonan eini náni vinur þeirra og þeir hafa ekki þörf fyrir annan félagsskap. Svo skellur þetta á þeim þegar þeir missa konuna sína.“
Sorgin þarf tíma
Bragi telur að betur þyrfti að huga þessum hópi. „En það þarf að gera það á breiðum grunni og samfélagið þarf að láta sig þennan hóp varða. Ná þyrfti til þeirra með aukinni fræðslu. Síðan virðist það vera svo að úrræði sem bjóðast fólki í sorg séu of kynbundin og það þyrfti að skoða. Bara orðið „stuðningshópur“ virkar fráhrindandi á marga karla. Þeim finnst þeir ekki standa undir sér. það þarf heila kynslóð til að breyta svona viðhorfum. En yngri karlar eru með önnur viðhorf“
Bragi segir að vert væri að samfélagið allt endurskoðaði viðhorf sín til sorgar og hvernig við umgöngumst syrgjendur. „Allt of margir halda að sorgin gangi yfir á mjög skömmum tíma. En hún gerir það ekki. Sorgin þarf tíma, stundum miklu lengri tíma en samfélagið hefur þolinmæði til að bíða eftir.“