Ólafur Ragnar Grímsson forseti reynir ákaft að höfða til þeirra kjósenda sem vilja fá tækifæri til að segja hug sinn í þjóðaratkvæði, segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Ný könnun MMR, sem birt var í gær, gefur til kynna að mjög dragi nú saman með Ólafi og Þóru Arnórsdóttur, sem var með 43,4% stuðning en Ólafur með 41,3%. Munurinn er innan skekkjumarka.
Stefanía segir að margir séu spenntir fyrir nýjum valkostum en snúist hratt hugur við nánari umhugsun, enn sé auk þess enginn frambjóðandi farinn að auglýsa. Ólafur hafi sennilega með viðtalinu og ummælum um afstöðu- og reynsluleysi Þóru gert stuðningsmenn hennar enn fjandsamlegri í sinn garð en um leið styrkt stöðu sína hjá ýmsum öðrum.
„Ég efast um að við séum að snúa aftur til forsetaembættisins eins og það var, ég held að það sé liðin tíð,“ segir Stefanía.