Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað konu af ákæru um þjófnað á tveimur töskum úr fataverslun í miðborg Reykjavíkur. Þjófnaðurinn náðist á upptöku úr öryggismyndavél en upptakan dugði ekki til sakfellingar.
Þjófnaðurinn átti sér stað 11. maí 2011. Þá var tveimur töskum stolið úr fataverslun en verðmæti þeirra var nærri 150 þúsund krónur. Starfsmaður verslunarinnar kærði þjófnaðinn og sagðist hafa séð á upptöku úr öryggismyndavél að kona sem kom inn í verslunina hafi tekið aðra töskuna.
Viku síðar hafði sami starfsmaður samband við lögreglu og tilkynnti að sama kona væri í versluninni. Lögregla kom á vettvang og handtók konuna. Hún neitaði alfarið sök. Leitað var á heimili konunnar og fundust það talsvert mörg veski og töskur en ekki hinar stolnu.
Í niðurstöðu dómsins segir að þó það sé mat dómsins að konan á myndbandsupptökunni líkist konunni sem handtekin var sé ekki hægt að slá því föstu svo óyggjandi að það sé hún. Var hún því sýknuð.