Bjarni ræddi ESB-mál við Hague

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Rax / Ragnar Axelsson

„Við ræddum meðal annars evrukrísuna, sjónarmið Breta varðandi það sem er að gerast í Evrópusambandinu og makríldeiluna,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem átti fund með William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, í London í gær. 

„Ég átti fund með honum í utanríkisráðuneytinu í London. Þetta var góður fundur þar sem við ræddum samskipti flokkanna (Sjálfstæðisflokksins og breska Íhaldsflokksins), en ekki síst ástandið í Evrópu, evrukrísuna, sjónarmið Breta varðandi það sem er að gerast og þróast í Evrópusambandinu.“

Ræddu makríldeiluna

„Ég notaði tækifærið til að ræða makríldeiluna og hugmyndir ESB um að beita refsiaðgerðum gegn Íslendingum vegna málsins. Ég mótmælti því auðvitað og tel að það hafi verið mikilvægt að koma þeim sjónarmiðum á framfæri við hann,“ segir Bjarni.

Mikil óvissa um þróun ESB

Hann segir að á fundinum hafi komið fram að Bretar hafi miklar áhyggjur af því hvernig takist að leysa evrukrísuna og hvaða áhrif hún komi til með að hafa á breskan efnahag. Mikil ólga sé í Evrópusambandsumræðunni í Bretlandi. 

„Það hefur verið skýr lína hjá breska Íhaldsflokknum að þeir vilja endurheimta völd frá Brussel og halda sig utan evrusvæðisins. Þeir eru líka mótfallnir hugmyndum um Evrópusambandið í framtíðinni sem nokkurs konar sambandsríki. Þetta er krafa margra stóru ríkjanna, það er ljóst að það er undirliggjandi mikil óvissa um hvernig þróa eigi sambandið inn í framtíðina.“

William Hague utanríkisráðherra Bretlands.
William Hague utanríkisráðherra Bretlands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert