Forsetar hittast í Tékklandi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Vaclav Klaus Tékklandsforseti í …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Vaclav Klaus Tékklandsforseti í tékknesku forsetahöllinni í dag. mbl.is/Börkur

Það var augljóslega hlýtt á milli forseta Tékklands, Vaclav Klaus og forseta Íslands, Ólafs Ragnar Grímssonar, á fundi þeirra í tékknesku forsetahöllinni í opinberri heimsókn forseta Íslands til tékkneska lýðveldisins sem hófst í dag.

Þeir hittust fyrst á tíunda áratugnum þegar Vaclav Klaus var fjármálaráðherra og var í fylgdarliði Vaclavs Havel, þáverandi forseta Tékklands, þegar hann kom í stutta heimsókn til Íslands. Þegar Vaclav Klaus var orðinn forseti kom hann síðan í opinbera heimsókn til Íslands árið 2005 og tók Ólafur Ragnar þá á móti honum.

Eftir vel rúmlega klukkutíma fund þeirra spjölluðu þeir við blaðamenn á stuttum blaðamannafundi í höllinni. Þar gerði forseti Íslands það að umræðuefni að hann vildi sýna tékkneskri kvikmyndagerð virðingu sína enda hafa hafa margir af efnilegustu íslensku kvikmyndaleikstjórum samtímans lært kvikmyndagerð í Prag, í FAMU, einum virtasta kvikmyndaskóla Evrópu í dag.

Forseti Íslands mun einmitt fara í heimsókn í FAMU á morgun og kynna þar stuttmynd eftir Hjálmar Einarsson, kvikmyndaleikstjóra sem er meðal margra Íslendinga sem hafa stundað nám þar. Seinna á föstudeginum mun hann síðan halda smá tölu áður en sýning á bíómynd Rúnars Rúnarssonar, Eldfjallið, mun hefjast.

Tékkar vilja hjálpa til við uppbyggingu

Á blaðamannafundinum sagði Vaclav Klaus að þeir hefðu rætt mjög margt á fundi sínum og hann ítrekað að Tékkar myndu mjög gjarnan vilja hjálpa við uppbyggingu efnahagslífsins á Íslandi eftir þá krísu sem Ísland lenti í árið 2008.
Ólafur Ragnar fór yfir tengsl Íslands við Tékkland og sagðist glaður yfir því að hafa verið í för með Iceland Express-flugfélaginu í fyrstu ferð flugfélagsins til Tékklands, en flugfélagið er að hefja reglulegt flug á milli landanna.

Ólafur Ragnar mun opna viðskiptaráðstefnu á morgun, föstudag, þar sem hann sagðist vonast til að fleiri viðskiptatengsl muni nást. Hann tilkynnti að bráðlega muni koma út íslensk-tékknesk orðabók sem unnið hefur verið að árum saman. Vaclav Klaus grínaðist með það að hann hefði einmitt verið að þiggja að gjöf frá Ólafi Ragnari bók um ferð Tékka nokkurs til Íslands á 17. öld, Daniels Vetter. Þar sem bókin væri á íslensku hefði hann verið að velta fyrir sér hvað hann ætti að gera við bókina, en fyrst nú væri að koma út orðabók þá hlakkaði hann til að geta kannski komist í gegnum hana.

Spurður um tékkneskar herþotur

Forseti Íslands var spurður að því hvort það hefði eitthvað verið rætt að tékkneskar herþotur munu gæta lofthelgi Íslands í gegnum NATO-samstarfið á næstunni en Ólafur Ragnar sagði að margt hefði komið til umræðu en ekki það.

Svo fór hann í gegnum sögu Íslands á tíma kalda stríðsins og hvernig mikilvægi þessa svæðis hefði minnkað með lyktum þess stríðs og að bandaríski herinn hefði á endanum lokað herstöðinni á Íslandi og síðan þá hafi ýmsar NATO-þjóðir sent herþotur til að gæta lofthelgi landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert